Hvað er þetta Smíðaverkstæði?

Framhlið ÞH 

Eins og nafnið ber til kynna er Smíðaverkstæðið fyrrum trésmíðaverkstæði Þjóðleikhússins þar sem leikmyndir voru smíðaðar í eina tíð. Smíðaverkstæðið er nú eitt af fimm sviðum hússins og er staðsett í kjallara aðalbyggingarinnar fögru við Hverfisgötu.

Hér eru upplýsingar um sviðið sem fengnar eru af heimasíðu Fræðsludeildar Þjóðleikhússins:
 
Í lok árs 1991 þegar leikmyndasmíðin hafði verið flutt úr húsinu hófust framkvæmdir við nýtt leiksvið Þjóðleikhússins. Löngu var orðið tímabært að Þjóðleikhúsið hefði yfir að ráða öðru leiksviði sem væri minna og óhefðbundnara í sniðum en stóri salurinn. Í smærra rými verður nálægðin við áhorfendur önnur, áherslur í leik og efnistökum eru sömuleiðis ólíkar og oft er mögulegt að stunda áræðna tilraunastarfsemi á minni sviðum; gefa nýjum höfundum og listamönnum tækifæri á að spreyta sig. 
Fyrsta frumsýning á Smíðaverkstæðinu var leikgerð Hávars Sigurjónssonar á verki Vigdísar Grímsdóttur Ég heiti Ísbjörg ég er ljón í janúar 1992. Meðal vinsælla verka sem sýnd hafa verið á leiksviðinu síðan þá eru: Sannar sögur af sálarlífi systra, Stræti, Taktu lagið Lóa, Með fulla vasa af grjóti,  Veislan og Karíus og Baktus. 

Smíðaverkstæðið tekur frá 110 upp í 160 áhorfendur allt eftir því hvernig sætaskipan er í salnum. Leikrýmið er þeim kostum búið að hægt er að skipa því niður eftir því hvað hentar hverju leikverki fyrir sig. Þannig er hægt að leika eftir salnum þvert og endilangt, með áhorfendur sér til sitt hvorrar handar eða beint; eða á ská og þannig skapa fyrir áhorfandan ætíð nýja nálægð við leikarann. Nálægð þar sem hver hreyfing, hvert svipbrigði fer að skipta máli.
 
Fyrsti leiksviðsstjóri Smíðaverkstæðisins var Gísli Árnason. Núverandi umsjónarmaður Smíðaverstæðisins er Ingrid Alering en starf hennar felur í sér alla almenna umsjón með leiksviðinu ásamt sýningarstjórn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband